Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands hefur komist að þeriri niðurstöðu að ritstjórn Víkurfrétta hafi brotið með ámælisverðum hætti gegn þeirri grein siðareglna blaðamanna, sem kveður m.a. á um að blaðamenn skuli vanda upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er.
Málið snérist um frétt, sem birtist á vef blaðsins um fjóra ruslapoka sem fundust uppi á Miðnesheiði. Fréttin var skrifuð sem beint ávarp til nafngreindrar konu, sem var beðin um að koma ruslinu sínu til eyðingar hjá Sorpeyðingarstöð Suðurnesja.
Daginn eftir birtist önnur frétt á vefnum vf.is þar sem sagði, að konan vildi ekki kannast við ruslið ,,þrátt fyrir að þar væri m.a. póstur merktur henni." Síðan segir að konan hafi í félagi við annan aðila komið á ritstjórn Víkurfrétta og sá hafi haft í hótunum við blaðamann.
Konan kærði til siðanefndar og sagðist hvorki hafa sjálft né aðrir á hennar vegum skilið rusl eftir á Miðnesheiði líkt og fullyrt væri í umfjöllun vf.is. Þrátt fyrir það hefði hún verið nefnd með fullu nafni í fyrirsögn fyrstu fréttar af málinu og ítrekað í síðari frétt.
Víkurfréttir sögðust í svari til siðanefndar hafa afmáð nafn konunnar úr fréttunum og þær síðan gerðar óvirkar í vefumsjónarkerfi vf.is ,,af tillitsemi við kæranda, enda krafðist kærandi þess" í heimsókn sinni til Víkurfrétta. Ritstjóri vf.is segist hins vegar að fullu standa við umræddar fréttir enda viti hann að ,,efni fréttanna er rétt og vel var staðið að vinnslu þeirra. Á hinn bóginn skiljum við að einhverjum kunni að hafa fundist framsetning fréttanna óvarfærin." Því hafi fréttirnar verið fjarlægðar.
Siðanefnd tók undir það sjónarmið Víkurfrétta/vf.is að það sé eðlilegt hlutverk fjölmiðla að vekja athygli á því sem betur megi fara í umhverfismálum, þar með talið umfjöllun um rusl sem hent sé á víðavangi. Hins vegar hafi birting á nafni kæranda hafi verið óþörf og ógætileg. Jafnframt beri það vott um óvönduð vinnubrögð að gera enga tilraun til þess að hafa samband við kæranda og leita skýringa á því af hverju bréf með nafni kæranda fannst í ruslinu.
„Siðanefnd virðir Víkurfréttum/vf.is það til málsbóta að í kjölfar athugasemda kæranda voru fréttirnar teknar af vefmiðlinum og jafnframt hafi ritstjóri vf.is beðist afsökunar á nafnbirtingunni í persónulegu bréfi til kæranda. Þess ber þó að geta að nafn kæranda var ekki fjarlægt fyrr en eftir að það hafði verið birt í frétt vf.is öðru sinni og að afsökunarbeiðni ritstjóra Víkurfrétta/vf.is barst kæranda tveimur vikum síðar. Siðanefnd telur að það hefði verið sanngjörn og eðlileg lausn þessa máls að afsökunarbeiðni hefði birst á vf.is. Tilboð Víkurfrétta/vf.is um að koma athugasemdum um efni og vinnslu fréttanna á framfæri á vefmiðlinum gat ekki komið í stað afsökunarbeiðni," segir í úrskurði nefndarinnar.