Dýrara að reka leikskólann Hólmasól

 Fulltrúi Vinstri grænna í skólanefnd Akureyrar, Hlynur Hallsson,  lagði fram bókun á fundi nefndarinnar í gær þar sem sagði að leikskólinn Hólmasól verði bænum enn kostnaðarsamari en fyrirséð var og hvert pláss dýrara fyrir bæinn og foreldra en á öðrum leikskólum.   

Bent er þar á þann aukakostnað sem einkavæðing hefur í för með sér og að nú stefni í að sá mismunur muni stóraukast á næstunni sé ekki gripið til viðeigandi ráðstafana. Þar kemur fram að bókunin sé ekki lögð fram sem gagnrýni á Hjallastefnuna eða leikskólann Hólmasól. Í bókuninni kemur fram að samningur bæjaryfirvalda við “Hjallastefnuna ehf.” er vísitölubundinn meðan aðrir leikskólar á Akureyri fá fasta upphæð árið 2008, þrátt fyrir um 12% verðbólgu.  Þar tekur Hlynur fram að hvert pláss á Hólmasól sé nú þegar dýrara fyrir Akureyrarbæ og foreldra en pláss á öðrum leikskólum og ef fram heldur sem horfir mun Akureyrarbær greiða hlutfallslega mun hærri upphæð fyrir Hólmasól en aðra leikskóla í bænum.   

Gunnar Gíslason fræðslustjóri hjá Akureyrarbæ sagði í samtali við blaðamann mbl.is að það ætti ekki að vera dýrara að reka Hólmasól en hugsanlegt sé að sú staða sé uppi þegar verðbólgan er komin af stað. Þegar fjárhagsáætlun var gerð sl. áramót kom í ljós að um sambærilegan kostnað væri að ræða miðað við sambærilega þjónustu. Hann sagði að þetta mál yrði skoðað betur í ljósi verðbólguþróunar.   

Aftur á móti segist Gunnar ekki gera sér grein fyrir hvað Hlynur er að vísa í þegar hann segir í bókun sinni að foreldrar greiði hærra gjald en aðrir leikskólar á Akureyri þar sem það er sama gjaldskrá fyrir allar leikskóla á Akureyri. Ef foreldrar eru að greiða meira þá er það eitthvað sem samið hefur verið sérstaklega um.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert