Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu flóttamannanefndar um að bjóða allt að 30 manna hópi palestínskra flóttamanna hæli á Íslandi. Um er að ræða konur, einstæðar mæður og börn þeirra sem nú dvelja við afar bágar aðstæður í Al Waleed flóttamannabúðunum í Írak. Akraneskaupstaður hefur nú til umfjöllunar erindi frá flóttamannanefnd um að taka á móti hópnum, líklega síðar í sumar.
Að sögn félagsmálaráðuneytisins hafa konurnar flestar misst eiginmenn sína í stríðsátökum undanfarinn ára og eru taldar líklegar til að geta nýtt sér tækifæri til nýs lífs í íslensku samfélagi.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur fjallað um aðstæður þeirra einstaklinga sem ætlunin er að bjóða hæli hér á landi og veitt þeim stöðu flóttamanna. Nú tekur við ferli hér heima sem felst í því að kanna nákvæmlega aðstæður þeirra einstaklinga sem um ræðir. Að lokum mun sendinefnd með fulltrúum flóttamannanefndar og fulltrúa Útlendingastofnunar fara til flóttamannabúðanna í Al Waleed og taka viðtöl við hælisleitendur.
Að sögn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna eru aðstæður í flóttamannabúðunum í Al Waleed afar slæmar. Hitastig á svæðinu getur sveiflast frá frosti upp í fimmtíu gráður á celsíus. Fólkið býr í tjöldum við afar slæman aðbúnað og þjónusta á staðnum er bágborin. Til að fá læknisþjónustu þarf að ferðast um 400 kílómetra leið í leigubíl því enginn aðgangur er að sjúkrabílum. Flóttafólkinu stafar hætta af snákum og rottum, börnum af stöðugum ferðum flutningabíla og íbúum öllum stafar hætta af því að eldur brjótist út í tjaldbúðunum.
Frá árinu 1996 þegar flóttamannaráð var stofnað, hafa Íslendingar tekið á móti 277 flóttamönnum, flestum frá löndum Austur Evrópu. Á árunum 1956-1991 var tekið á móti 204 flóttamönnum. Nýlega undirrituðu félags- og tryggingamálaráðherra og utanríkisráðherra samkomulag um móttöku flóttamanna til tveggja ára og grundvallast ákvörðun ríkisstjórnar Íslands um móttöku palestínsku flóttamannanna meðal annars á því samkomulagi.