Heimilin í landinu hafa aukið sparnað sinn töluvert á undanförnum mánuðum. Innlán heimilanna stóðu í mars í rúmlega 560 milljörðum en stóðu í 428 milljörðum fyrir ári. Talsmenn tveggja banka segja bankana finna fyrir þessari aukningu. Hagfræðingar eru sammála um að þessi þróun komi ekki á óvart enda sé hún eðlileg í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á fjármálamarkaði.
Gunnar Haraldsson, forstöðmaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, er sammála Eddu Rós að þetta komi ekki á óvart. „Það er margt sem bendir til þess að við séum að fara inn í erfiðara tímabil þannig að það kemur ekki á óvart að fólk reyni að spara,“ segir hann.
Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, tekur undir með þeim Eddu Rós og Gunnari. „Í sjálfu sér helst þetta í hendur við það almenna sem er að gerast í efnahagsmálum. Það hvetur til sparnaðar,“ segir hann og bætir við: „Þegar almennar aðstæður á fjármálamarkaði verða jafn-slæmar og þær eru, hlutabréf hafa til dæmis verið að gefa mjög illa af sér, þá flýrðu inn í öruggara sparnaðarform sem innlán vissulega eru.“
Ingólfur segir eðlilegt að fólk leggi eitthvað til hliðar þegar það býst við efnahagslægð. Hann segir aðgerðir Seðlabankans einnig skýra þetta að hluta. „Hann er í sjálfu sér að reyna að fá almenning til þess að spara meira og taka minna af lánum. Samhliða þessu ætti að draga úr skammtímalánum, þó að við sjáum það ekki í yfirdráttarlánum fyrir sama tímabil,“ segir hann. Hann bendir einnig á að gengisbundin innlán hafi hækkað með gengislækkun krónunnar.