Heimilin auka sparnað

Heimilin í landinu hafa aukið sparnað sinn töluvert á undanförnum mánuðum. Innlán heimilanna stóðu í mars í rúmlega 560 milljörðum en stóðu í 428 milljörðum fyrir ári. Talsmenn tveggja banka segja bankana finna fyrir þessari aukningu. Hagfræðingar eru sammála um að þessi þróun komi ekki á óvart enda sé hún eðlileg í ljósi þeirra aðstæðna sem nú eru á fjármálamarkaði.

Vöxtur frá áramótum

,,Innlán hafa vaxið nokkuð síðan um áramót, auk þess sem fjárfestingar í ýmsum sjóðum hafa aukist,“ segir Már Másson, upplýsingafulltrúi Glitnis. Hann segir innlánsreikning banka með stighækkandi vöxtum þar sem vextir eru greiddir út mánaðarlega hafa fengið mjög góðar viðtökur. „Vextir á þessum reikningi frá 11,17%-16,45% og binditími 10 dagar,“ úskýrir hann. Már segir bankann finna almennt fyrir auknum áhuga einstaklinga á sparnaði. „Það eru enda margar góðar sparnaðarleiðir í boði, þ.á m. verðtryggðir skuldabréfasjóðir og innlánsreikningar sem bera háa vexti nú um stundir.“

Kemur ekki á óvart

Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segir aukningu innlána ekki koma á óvart. „Verðbréf hafa verið að lækka. Með áhættufælninni þá segir það sig sjálft að fólk færir sig yfir í það sem það telur áhættulaust,“ segir hún og bætir við: „Þetta er akkúrat það sem maður myndi ætla að myndi gerast þegar það er áhættufælni.“

Gunnar Haraldsson, forstöðmaður Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, er sammála Eddu Rós að þetta komi ekki á óvart. „Það er margt sem bendir til þess að við séum að fara inn í erfiðara tímabil þannig að það kemur ekki á óvart að fólk reyni að spara,“ segir hann.

Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, tekur undir með þeim Eddu Rós og Gunnari. „Í sjálfu sér helst þetta í hendur við það almenna sem er að gerast í efnahagsmálum. Það hvetur til sparnaðar,“ segir hann og bætir við: „Þegar almennar aðstæður á fjármálamarkaði verða jafn-slæmar og þær eru, hlutabréf hafa til dæmis verið að gefa mjög illa af sér, þá flýrðu inn í öruggara sparnaðarform sem innlán vissulega eru.“

Ingólfur segir eðlilegt að fólk leggi eitthvað til hliðar þegar það býst við efnahagslægð. Hann segir aðgerðir Seðlabankans einnig skýra þetta að hluta. „Hann er í sjálfu sér að reyna að fá almenning til þess að spara meira og taka minna af lánum. Samhliða þessu ætti að draga úr skammtímalánum, þó að við sjáum það ekki í yfirdráttarlánum fyrir sama tímabil,“ segir hann. Hann bendir einnig á að gengisbundin innlán hafi hækkað með gengislækkun krónunnar.

Góður tími til að spara

Gunnar segir að nú sé góður tími fyrir einstaklinga til að spara. „Það hafa auðvitað ekki allir efni á því að spara. Þeir sem hafa efni á því gera það en þeir sem ekki geta það neyðast til þess að taka lán og auka við þau, til dæmis yfirdráttarlánin,“ segir Gunnar, en þrátt fyrir aukningu á innlánum hafa útlán einnig aukist. Hann segir að aukinn sparnaður heimilanna geti dregið úr verðbólguþrýstingi. „Það er skynsamlegt fyrir heimilin að spara en ekki gott fyrir fyrirtækin og verslunina í landinu.  
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert