Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, sagði á Alþingi í dag, að koma frönsku flugsveitarinnar, sem mun sinna svonefndri loftrýmisgæslu hér við land næstu fjórar vikur, sé liður í Evrópuvæðingu varnarmála Íslands.
„Ég held að það hljóti að teljast nokkur tíðindi, að Frakkar séu nú komnir hingað með sína eftirlitssveit því þetta er í fyrsta skipti sem aðrir en bandarískar sveitir hafa eftirlit með íslenskri lofthelgi og er auðvitað liður í þessari Evrópuvæðingu okkar öryggis- og varnarmála. Það merkilega líka við þetta er að Frakkar hafa hingað til staðið utan við hermálanefnd NATO og ekki verið þátttakendur í því starfi," sagði Ingibjörg Sólrún sem bætti við að ekki væri gert ráð fyrir að kostnaður við þetta eftirlit færi yfir 200 milljónir króna á árinu.
Ingibjörg Sólrún var að svara fyrirspurn frá Steingrími J. Sigfússyni, þingmanni VG, sem m.a. vildi vita hver væri réttarstaða frönsku flugsveitarinnar þegar komið væri út fyrir 12 mílna lofthelgina og hvort ríkislögreglustjóri hefði sett reglur um meðferð skotvopna og skotfæra í loftförum innan íslenskrar lofthelgi. Ingibjörg Sólrún sagðist reikna með að sömu reglur giltu um Frakkana og Bandaríkjamenn, sem sinntu þessu eftirliti í áratugi. Frakkarnir gefa ekkert sérstakt tilefni til að setja reglur.
Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður VG, sagði að það sem Ingibjörg Sólrún kallaði Evrópuvæðingu væri ekkert annað en NATO-væðing og vígvæðing íslenskra öryggismála. Ingibjörg Sólrún sagði það öfugmæli því í 60 ár hefði vígbúnaður hér á landi ekki verið minni en nú.