Lágverðsbúðir hækkuðu

Verð vörukörfu ASÍ hækkaði hlutfallslega mest í lágvöruverðsverslunum milli 2. og 4. viku apríl sl., þ.e. viku 15 (6.–12. apríl) og viku 17 (20.-26. apríl). Verðið hækkaði í Bónus um 7,1% milli þessara tveggja vikna, um 6,6% í Nettó, í Kaskó um 5,7% og í Krónunni um 5,4%. Verð vörukörfunnar breyttist um aðeins 0,5-1% í öðrum verslunarkeðjum á sama tíma.

Þegar horft var á verðbreytingu í lágvöruverðsverslunum milli 3. og 4. viku apríl, það er viku 16 (13.-19. apríl) og viku 17 (20.-26. apríl) hækkaði vörukarfan mest í Krónunni, um 4,6%, í Bónus um 4,2%, í Nettó um 3,2% en 0,1% í Kaskó. Þegar skoðaðar eru verðhækkanir á einstökum vöruflokkum í þessum verslunum milli vikna 16 og 17 sést að kjötvörur hækkuðu um 13,7% í Bónus, 17,3% í Krónunni, 8,9% í Nettó en lækkuðu um 1,5% í Kaskó. Verðsveiflur í öðrum vöruflokkum voru miklu minni.

Þegar litið er til annarra verslanakeðja, þ.e. Hagkaupa, Nóatúns, Samkaupa-Úrvals og klukkubúðanna 10-11, 11-11 og Samkaupa-Strax, eru verðsveiflur miklu minni en í lágvöruverðsverslunum. Þannig hækkaði verð vörukörfu ASÍ milli vikna 15 og 17 um 1,1% í Hagkaupum, 0,4% í Nóatúni, 1,2% í Samkaupum-Úrvali, 0,7% í 10-11, 1,1% í 11-11 og 0,7% í Samkaupum-Strax. Verðbreytingar vörukörfu í þessum verslunum milli vikna 16 og 17 voru yfirleitt litlar en þó mestar í Samkaupum-Strax þar sem karfan hækkaði um 2,0%. Hjá Samkaupum-Strax hækkuðu t.d. brauð og kornvörur um 4,7% og kjötvörur um 10% sem voru langmestu verðbreytingar í öllum vöruflokkum hjá þessum verslunum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert