Réttargæslumaður annarrar stúlkunnar sem hefur kært séra Gunnar Björnsson, sóknarprest á Selfossi, fyrir kynferðisbrot segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hafi um málið hafi brotin falist í kynferðislegri áreitni sem hafi staðið yfir í mörg ár. Þá hafi presturinn ávallt verið einn með stúlkunni þegar hann framdi hin meintu kynferðisbrot.
Réttargæslumaðurinn, Þorbjörg Inga Jónsdóttir, segir að málið snúist um áreitni sem hafi staðið yfir frá því stúlkan var í fermingarfræðslu hjá kirkjunni fyrir nokkrum árum og um eitt tiltekið og alvarlegt atvik sem átti sér stað skömmu fyrir páska. Stúlkan hefur tekið þátt í starfi kirkjunnar þar til fyrir skemmstu.
Í DV í gær er m.a. haft eftir sr. Gunnari Björnssyni að málið byggist á misskilningi. Hann sé hlýr maður sem faðmi fólk að sér og smelli á það kossi. Þorbjörg Inga kvaðst ósátt við þessi orð.
„Foreldrar míns umbjóðanda eru mjög ósáttir við orð hans í Dagblaðinu,“ segir hún. Hann hafi í raun vegið að trúverðugleika stúlkunnar. „Það er ekki eitthvað sem getur flokkast undir misskilning, það sem minn umbjóðandi er að lýsa.“