Hollvinir Hallargarðsins hafa sent erindi til borgarstjórnar Reykjavíkur, þar sem þess er óskað að Hverfisráðið fjalli um kaupsamning milli Novators og Reykjavíkurborgar um Fríkirkjuveg 11 o.fl., einkum í ljósi þeirra breytinga sem samningurinn heimilar kaupanda að gera á Hallargarðinum.
Hollvinir Hallargarðsins telja Hverfisráðið eiga skv. samþykktum að fjalla um breytingar á eina útivistar- og leiksvæði Þingholta og Laufáss og óska eftir góðri samvinnu við ráðið þar um.
Kaupsamningurinn er á dagskrá borgarstjórnarfundar í dag og hafa Hollvinir óskað eftir frestun á afgreiðslu hans til þess m.a. að unnt verði að kynna hann í grenndarkynningu, samkvæmt tilkynningu.