Ríkislögreglustjóri og ríkissaksóknari hafna ásökunum visis.is og
fréttaskýringaþáttarins Kompáss á Stöð 2 þess efnis að ríkislögreglustjóri hafi logið að ríkissaksóknara, segir í yfirlýsingu frá embættunum í dag.
Í yfirlýsingunni segir:
„Á vefmiðlinum visir.is í dag, þriðjudaginn 6. maí, segir í fyrirsögn: „Kompás í kvöld: Ríkislögreglustjóri laug að ríkissaksóknara." Með fréttinni er birt mynd og nafn ríkislögreglustjóra.Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri og Valtýr Sigurðsson, ríkissaksóknari hafna alfarið umræddum ásökunum.
Embætti ríkislögreglustjóra óskaði með símbréfi til Þjóðskjalasafnsins dagsettu 11. maí 2007, eftir afriti af gögnum um andlát tveggja manna sem létust árið 1985.
Í svari Þjóðskjalasafns, dagsettu 25. maí 2007, var upplýst að gögn málsins hefðu ekki fundist við fyrstu athugun. Leitaði ríkislögreglustjóri þá til Landspítala Háskólasjúkrahúss, þann 4. júní 2007, eftir sömu gögnum. Í svari Landspítalans frá 6. júní 2007 fylgdi afrit af krufningarskýrslum og gögnum Rannsóknarlögregluríkisins.
Hinn 1. ágúst sama ár var ættingjum annars hinna látnu kynnt þessi gögn en þeim synjað um afrit af þeim með vísan til reglna ríkissaksóknara um aðgang að gögnum opinberra mála sem lokið er.“