Segja hvorki hættu né skaða af virkjuninni

Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, segir áhættumat hafa verið kynnt á opnum fundum í sveitarfélögunum á svæðinu og ljóst að ekki sé meiri hætta af flóðum vegna virkjunarinnar en er nú þegar af náttúrulegum flóðum sem verða í ánni. Muni virkjunin raunar draga úr þessum náttúrulegu flóðum. „Vatnsborðshækkunin sem um er að ræða í lóninu ofan við Urriðafoss er fjórir metrar og mælingar sýna að jafnvel þó stíflan myndi bresta og ekkert yrði gert til að draga úr flóðinu, þá myndi straumurinn fara niður gilið sem fyrir er, en ekki upp fyrir bakka þess og ljóst að ekki myndi skapast hætta af fyrir íbúa á svæðinu.“

Um áhyggjur landeigenda af foki jökulleirs segir Þorsteinn að gert sé ráð fyrir að ganga þannig frá að leirinn fjúki ekki. „Margar áreyrar eru á svæðinu í dag, og fýkur úr. Þessar eyrar fara undir vatn þegar lónið fyllist og ætti fok úr þeim þá að verða úr sögunni. Því er ekki ástæða til að ætla að aukning verði á foki vegna virkjunarinnar.“

Þorsteinn segist hafa skilning á áhyggjum heimamanna. „Þegar fólk er ánægt með það sem það hefur er ósköp skiljanlegt að breytingar geti verið eitthvað sem því líkar ekki,“ segir hann. „Hins vegar seldu landeigendur, að langstærstum hluta, vatnsréttindi í frjálsum samningum á sínum tíma og eru skilgreindar kvaðir á þessum jörðum um að megi nýta þessi réttindi. Ákvæði eru í samningunum um hvernig með skuli fara þegar rask á sér stað á jörðu manna út af nýtingu þessara réttinda og við höfum unnið á þeim grundvelli,“ segir hann og bætir við að vel hafi gengið að ræða við bændur á svæðinu og leita lausna í samráði við þá um hvernig mannvirkin geta valdið sem minnstum skaða. „Svo er ljóst að ef skaðinn verður mikill og óhjákvæmilegur þá koma bætur fyrir það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert