Ekki kemur til greina að ríkissjóður greiði kostnað við gerð umhverfismats vegna mögulegrar olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum. Þetta kom fram í svari Össurar Skarphéðinssonar, iðnaðarráðherra, við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur, þingmanns Vinstri grænna, á Alþingi í gær.
Álfheiður fagnaði svarinu og áréttaði einnig að það hlyti að vera kominn tími til að framkvæma umhverfismat enda bærust endalaus gylliboð um byggingu olíuhreinsunarstöðvar. „Hér er um gríðarlega dýrt verkefni að ræða. Það er líka eðli máls samkvæmt mjög flókið og ég fagna því að ríkið ætlar ekki að borga þetta fyrir framkvæmdaaðilann, sem ekki einu sinni er vitað hver er,“ sagði Álfheiður og minnti á að umhverfismat fyrir Kárahnjúkavirkjun hefði kostað a.m.k. 300 milljónir.
Össur sagði iðnaðarráðuneytið hafa fimm milljónir króna til ráðstöfunar til að kanna staðarval fyrir mögulega olíuhreinsunarstöð og að auk þess hefði verið staðið við áður gefin loforð um að greiða niður ferðakostnað fyrir menn sem fóru að skoða slíka starfsemi. Sá kostnaður hafi verið um 1,8 milljónir.