„Ég held að borgarstjóri sé áhrifalaus og sé nú að átta sig á því,“ segir Stefanía Óskarsdóttir stjórnmálafræðingur. Hún bendir á að Ólafur F. Magnússon sé þekktur fyrir að fylgja sinni sannfæringu og því hljóti að vera erfitt fyrir hann að finna að ekki sé á hann hlustað innan meirihlutans í borgarstjórn.
„Hanna Birna Kristjánsdóttir segir að borgarstjórinn megi hafa sína skoðun á skipulagningu Vatnsmýrarinnar, en virðist samt sem áður gefa í skyn að skoðun hans skipti engu máli. Þetta er vísbending um að það sé ekki mikið mark á honum tekið,“ segir Stefanía.
Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir stöðu borgarstjóra erfiða. „Ólafur F. Magnússon segist hafa slitið Tjarnarkvartettinum á grundvelli málefnaágreinings. En honum virðist ekki ætla að farnast betur með sín stefnumál í nýjum meirihluta.“
Stefanía segir dapurlegt að borgarfulltrúar meirihlutans skuli ekki ganga í takt. Bæði sé ágreiningur innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna, og milli sjálfstæðismanna og borgarstjóra. „Ólafur á þó ekki mikla möguleika á samstarfi við aðra, og ég veit ekki hvort sjálfstæðismenn telja sig vera með marga aðra kosti í stöðunni. Svo lengi sem Ólafur lætur bjóða sér þetta, hangir meirihlutinn því líklega saman.“
Baldur segir málefni Vatnsmýrarinnar vera enn eitt málið sem kljúfi meirihlutann. „Það vekur óneitanlega athygli, að þrátt fyrir þessar stóru yfirlýsingar borgarstjóra um helgina, er Sjálfstæðisflokkurinn áfram að vinna með minnihlutanum að skipulagningu Vatnsmýrarinnar.
Maður veltir fyrir sér á hvaða grundvelli þessi meirrihluti starfar. Starfar hann á grundvelli málefna, eða starfar hann á grundvelli einhvers annars?“
Baldur segir ekki óeðlilegt að ætla að erfitt sé fyrir embættismenn borgarinnar að sinna sínum skyldum þessa dagana. „Þeir virðast hafa tvo herra; annars vegar borgarstjóra og hins vegar sjálfstæðismenn sem eru yfir flestum ráðum og nefndum borgarinnar.“