Leitin að manninum sem rændi útibú Landsbankans á Bæjarhrauni í Hafnarfirði í morgun stendur enn yfir. Maðurinn sem er sagður vera á þrítugsaldri huldi andlit sitt og ógnaði starfsfólki með hnífi.
Lögregla höfuðborgarsvæðisins sendi allt tiltækt lið til að leita í nágrenni við bankann og stendur sú leit enn yfir.
Að sögn varðstjóra lögreglunnar eru um 7 lögreglubílar og einhver mótorhjól á svæðinu en leitin hefur enn ekki borið árangur.
Boð um ránið barst lögreglunni frá öryggisfyrirtæki um klukkan 9.30 í morgun.
Maðurinn ógnaði starfsmönnum með hnífi og komst undan með einhverja fjármuni. Hann var í hettupeysu og huldi andlit sitt með klúti. Hann komst undan á hlaupum.
„Það er allt tiltækt lið að leita að ræningjanum, það er bara lágmarksgæsla í öðrum borgarhlutum núna," sagði varðstjóri lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins fyrir skömmu.
Hugsanlegir vitorðsmenn eða farartæki notuð við flóttann hafa ekki verið nefnd í tengslum við leitina.