Jakob Frímann Magnússon hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri miðborgarmála og heyrir starfið beint undir borgarstjóra. Starf framkvæmdastjóra Miðborgarmála er liður í aðgerðaráætlun borgarstjóra til eflingar miðborginni og er ráðningin til eins árs, samkvæmt tilkynningu.
„Honum er ætlað að starfa að miðborgarmálum og hafa yfirsýn yfir skipulagsmál, framkvæmdir og fjárfestingar í miðborginni með eflingu hennar og uppbyggingu að leiðarljósi. Framkvæmdastjóri fylgir eftir ákvörðunum borgarstjóra varðandi miðborgina og er tengiliður á milli stofnana borgarinnar og á milli borgarinnar og hagsmunaaðila," samkvæmt tilkynningu.
Jakob Frímann er tónlistarmaður að mennt og lauk MBA prófi frá Háskólanum í Reykjavík 2006. Hann er stofnandi Stuðmanna og hefur framleitt fjölmargar hljómplötur, kvikmyndir, og gefið út hljóð - og mynddiska í mörgum löndum. Jakob Frímann var sendifulltrúi utanríkisþjónustunnar frá árinu 1991 – 1996. Hann er stjórnarformaður
Reykjavik Records útgáfunnar, formaður Félags tónskálda og textahöfunda, formaður Samtóns og varaformaður STEFs, stofnfélagi og stjórnarmaður Íslandshreyfingarinnar, formaður hverfisráðs Miðborgar og varaformaður Menningar- og ferðamálanefndar. Jakob Frímann var varaþingmaður Samfylkingar 1999-2007 og sat sem slíkur á Alþingi 2006. Hann er stofnandi Græna hersins og gegndi starfi framkvæmdastjóra
Umhverfisvina.
Kona Jakobs er Birna Rún Gísladóttir framkvæmdastjóri hjá Kaupþingi. Dóttir þeirra er Jarún Júlía en Jakob á einnig dótturina Bryndísi.