Að leggja verðbólgumarkmiðið á hilluna tímabundið líkt og bandaríski hagfræðiprófessorinn Robert Z. Aliber leggur til væri algjört glapræði að mati Arnórs Sighvatssonar, aðalhagfræðings Seðlabanka Íslands. „Telji menn að hægt sé að reka peningastefnu og ná einhverjum skikkanlegum stöðugleika án þess að peningastefnan hafi einhverja kjölfestu er það algjörlega ný kenning. Þetta hafa menn gert í gegnum söguna með því að binda gjaldmiðilinn við gull, binda hann við annan traustan gjaldmiðil, hafa peningamagnsstýringu eða gera það sem við höfum gert, þ.e. láta gjaldmiðilinn fljóta og setja sjálfstæðum seðlabanka verðbólgumarkmið. Þeir sem vilja víkja frá verðbólgumarkmiðinu verða þá að benda á hvern hinna kostanna þeir vilja fá í staðinn. Einn kosturinn er síðan auðvitað að ganga í gjaldmiðlabandalag,“ segir Arnór. „Mér sýnist það sem menn eru að leggja til sé að við stefnum beina leið í kjölfarið á Simbabve.
Arnór segir að sér virðist sem hugtakið verðbólguvæntingar komi mönnum spánskt fyrir sjónir. „Launabreytingar taka mið af verðlagsbreytingum í fortíðinni og menn virðast algjörlega hafa gleymt þeim lærdómum sem við lærðum á 7. og 8. áratug síðustu aldar og vilja hverfa aftur til þess tíma. Slíkt er ekki í boði.
Stjórnmálamenn geta hins vegar tekið þá ákvörðun að taka upp aðra kjölfestu.“
Hann segir það munu hafa gríðarlegar fórnir og mikinn kostnað í för með sér að hleypa verðbólgunni upp í tugi prósenta. „Á endanum þurfa menn alltaf að hemja verðbólguna og því meiri sem hún er, því dýrara verður það. Slíkt þarf að gerast með aðhaldi og þá er hægt að nota þær aðferðir sem við beitum núna. Auðvitað væri einnig hægt að grípa til skömmtunar lánsfjár eins og forðum var gert.
Ef til vill eru menn að biðja um það aftur en mér þykir það ólíklegt. Ég tel að menn hafi ekki hugsað þessa hugsun til enda,“ segir Arnór Sighvatsson.