Íbúasamtök Grafarvogs og Laugardals lýsa furðu sinni og vonbrigðum á vinnubrögðum samgönguráðuneytis með því að kalla saman opinn fund um Sundabraut með tveggja daga fyrirvara og án þess að gefa íbúum nokkurn ræðutíma. Þetta kemur fram í tilkynningu frá íbúasamtökunum.
Fundurinn verður haldinn í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur í kvöld og hefst klukkan 20. Tilgangur fundarins er að upplýsa borgarbúa og annað áhugafólk um samgöngur um fyrirhugaða Sundabraut, mögulega útfærslu hennar og kostnað.
Kristján L. Möller samgönguráðherra ávarpar fundinn í upphafi og síðan fjalla sérfræðingar Vegagerðarinnar um Sundabraut. Þá munu borgarfulltrúarnir Gísli Marteinn Baldursson og Dagur B. Eggertsson einnig ávarpa fundinn. Að loknum erindum verður gefinn kostur á umræðum. Fundarstjóri verður Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra.
„Vegagerð ríkisins hefur haft uppi áróður í þessu máli gegn íbúum í Grafarvogi og Laugardalshverfum með því að láta útbúa meira en hæpna skýrslu, leka henni í fjölmiðla fyrir birtingu og reikna upp kostnaðarfjárhæðir til að villa um fyrir fólki.
Samt sem áður er löngu komin niðurstaða af hálfu Reykjavíkurborgar og íbúa hennar og málið hefur verið dregið úr hömlu með furðulegum hætti. Eins og eftirfarandi skilaboð til íbúa í tilefni þessa fundar frá Gísla Marteini Baldurssyni, formanni samráðshóps um Sundabraut, bera með sér er samhljóða vilji Reykjavíkurborgar og íbúasamtaka Grafarvogs og Laugardals á hreinu:
„Niðurstaða samráðshóps borgar, ríkis og íbúasamtaka beggja vegna Elliðavogs var skýr: Sundagöng úr Gufunesi í Lauganes er sá kostur sem stýrihópurinn vill og eini kosturinn sem samstaða getur náðst um. Borgarráð Reykjavíkur hefur staðfest þessa niðurstöðu stýrihópsins í tvígang og í borgarstjórn hefur verið samþykkt áskorun til samgönguyfirvalda um að taka ákvörðun um Sundagöng sem allra fyrst. Ef ákvörðun er tekin strax, er þegar hægt að hefja hönnunarvinnu, þannig að þegar umhverfismati lýkur sé styttra í framkvæmdir en ella." (Vitnað með leyfi).
Við krefjumst einnig fundar í samráðshópi borgarinnar, Vegagerðar ríkisins og íbúasamtaka. Samráð með íbúum er lögbundið og einnig hafa Skipulagsstofnun og umhverfisráðherra úrskurðað að samráð skuli haft við íbúa. Íbúa líta svo á að með þessum vinnubrögðum hafi lögbundinn og úrskurðaður réttur til samráðs af þar til bærum yfirvöldum verið sniðgenginn með grófum hætti," að því er segir í tilkynningu.