Kennarar í grunnskólum Akraness, Grundaskóla og Brekkubæjarskóla, hafa sett á yfirvinnubann vegna deilu við bæjaryfirvöld um greiðslu vegna aukins álags. Í grunnskólunum eru yfir þúsund nemendur og um 90 kennarar.
Meirihluti bæjarráðs Akraness samþykkti í gær að standa við fyrri afstöðu sína um að bjóða kennurum eingreiðslu upp á 60 þúsund krónur sem er háð því skilyrði að þeir samþykki nýgerðan kjarasamning. Fulltrúi minnihlutans bókaði að hann vildi að rætt yrði áfram við kennarana og aflað upplýsinga um hvað greitt hefði verið vegna álags kennara í Reykjavík og nágrenni, að sögn Gísla S. Einarssonar, bæjarstjóra. Hann taldi víst að málið yrði rætt frekar í bæjarstjórn.
Bæjarráð Akraness samþykkti svo 28. apríl að greiða kennurunum 60.000 króna eingreiðslu, miðað við fullt starf og í hlutfalli af stöðugildi eftir því sem við á, þegar kjarasamningar kennara og Launanefndar sveitarfélaga hefðu verið undirritaðir og samþykktir. Þá samþykkti bæjarráðið að greiða öðrum starfsmönnum kaupstaðarins jafnháa eingreiðslu þegar þeirra kjarasamningar hafa verið undirritaðir að loknu núverandi samningstímabili.
Elís Þór sagði kennarana vera mjög ósátta við að greiðslan til þeirra væri bundin því að þeir samþykktu kjarasamninginn. Telja þeir að þarna sé blandað saman alls óskyldum málum. Elís Þór sagði að eftir samþykkt bæjarráðs hefðu kennarar tilkynnt að þeir væru hættir að vinna ófyrirséða yfirvinnu.
Gísli bæjarstjóri sagði bæjarráð hafa talið sig vera að rétta út sáttarhönd til kennara með eingreiðslunni. Menn yrðu að gera sér grein fyrir því að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hefðu leitt þessar greiðslur og þær væru greiddar með mismunandi hætti. Víða á landinu væru álagsgreiðslur ekki greiddar.