Krónprinshjónin Friðrik og Mary komu í heimsókn til Stykkishólms í dag ásamt íslensku forsetahjónunum. Þyrla Landhelgisgæslunnar flutti gestina í Hólminn. Hálftíma seinkun varð á komu þeirra því þoka var yfir Snæfellsnessfjallgarðinum og þurfti að fljúga út fyrir Snæfellsnes.
Veðrið í Stykkishólmi getur vart betra orðið, logn og hiti. Gestirnir heimsóttu fyrst Grunnskólann í Stykkishólmi og fengu þar hlýjar móttökur. Síðan var haldið í Vatnasafnið þar sem listaverk Roni Horn er til húsa.
Þaðan var haldið í Norska húsið og í siglingu út á Breiðafjörð, þar sem snæddur var matur í boði bæjarstjórnar Stykkishólms.