Opinn fundur um Sundabraut stendur yfir í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur en fundurinn hófst klukkan átta. Tilgangur fundarins er að upplýsa borgarbúa og annað áhugafólk um samgöngur um fyrirhugaða Sundabraut, mögulega útfærslu hennar og kostnað.
Kristján L. Möller samgönguráðherra ávarpaði fundinn í upphafi og síðan fjalla sérfræðingar Vegagerðarinnar um Sundabraut. Þá munu borgarfulltrúarnir Gísli Marteinn Baldursson og Dagur B. Eggertsson einnig ávarpa fundinn. Að loknum erindum verður gefinn kostur á umræðum. Fundarstjóri verður Róbert Marshall, aðstoðarmaður samgönguráðherra.
Fyrr í dag lýstu Íbúasamtök Grafarvogs og Laugardals yfir furðu sinni og vonbrigðum á vinnubrögðum samgönguráðuneytis með því að kalla saman opinn fund um Sundabraut með tveggja daga fyrirvara og án þess að gefa íbúum nokkurn ræðutíma.