Ríkisendurskoðun með úttekt á rekstri Sóltúns

Hjúkrunarheimilið Sóltún
Hjúkrunarheimilið Sóltún

Í samningi hjúkrunarheimilisins Sóltúns við heilbrigðiráðuneytið frá árinu 2000 er mælt fyrir um skyldu Sóltúns til að veita vistmönnum iðju- og sjúkraþjálfun. Ríkisendurskoðun hefur kynnt sér skráningu á þjálfuninni í sjúkraskrám vegna ársins 2006 og komist að þeirri niðurstöðu að ekki skuli greitt fyrir þessa þjálfun. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Öldungi, rekstraraðila Sóltúns.

Þetta gerist þótt Ríkisendurskoðun sé ljóst að þjónustan hefur verið veitt og það á grundvelli skriflegs samnings. Ástæðan er sú að Ríkisendurskoðun telur að ekki hafi verið rétt staðið að skráningu umræddrar þjónustu. Af hálfu Sóltúns hefur verið vakin athygli á því að allt frá upphafi hefur verið fylgt sömu vinnubrögðum við skráningu þjálfunarinnar, að því er segir í yfirlýsingu frá Öldungi.

„Á ári aldraðra 1999 ákvað ríkið að koma á fót hjúkrunarheimili sem gæti tekið á móti sjúklingum með mikla hjúkrunarþyngd af sjúkrahúsum. Sóltún tók að sér hluta þessa verkefnis með samningi við heilbrigðisráðuneytið að undangengnu útboði. Verkkaupinn, ríkið, velur vistmenn inn á Sóltún. Flestir koma þeir af Landspítala og þurfa mikla umönnun. Af þessu leiðir að hjúkrunarþyngd á Sóltúni er meiri en á öðrum hjúkrunarheimilum og þjónustustigið hátt. Í samningi ríkisins og Sóltúns er mælt fyrir um mat á hjúkrunarþyngd skv. sérstöku kerfi (RAI-mati). Greiðslur fyrir þjónustu Sóltúns aukast fari hjúkrunarþyngd fram úr umsömdum mörkum.

Í samningi Sóltúns við heilbrigðiráðuneytið frá árinu 2000 er mælt fyrir um skyldu Sóltúns til að veita vistmönnum iðju- og sjúkraþjálfun. Ríkisendurskoðun hefur kynnt sér skráningu á þjálfuninni í sjúkraskrám vegna ársins 2006 og komist að þeirri niðurstöðu að ekki skuli greitt fyrir þessa þjálfun.

Þetta gerist þótt Ríkisendurskoðun sé ljóst að þjónustan hefur verið veitt og það á grundvelli skriflegs samnings. Ástæðan er sú að Ríkisendurskoðun telur að ekki hafi verið rétt staðið að skráningu umræddrar þjónustu. Af hálfu Sóltúns hefur verið vakin athygli á því að allt frá upphafi hefur verið fylgt sömu vinnubrögðum við skráningu þjálfunarinnar. Þá aðferð telur Sóltún vera í samræmi við samning aðila og opinberar reglur um RAI-mat.   

Afstaða Ríkisendurskoðunar virðist byggð á bréfi um skráningu vegna RAI-mats sem heilbrigðisráðuneytið sendi hjúkrunarheimilum 2005. Forráðamenn Sóltúns mótmæltu bréfinu harðlega þar sem það gekk gegn gildandi þjónustusamningi. Fagaðilar sem veittu álit vegna bréfsins voru sammála um mikilvægi þess að þjálfun standi vistmönnum Sóltúns til boða," að því er segir í yfirlýsingunni.

Þar segir ennfremur: „Forráðamenn og starfsfólk Sóltúns vísa á bug þeim aðdróttunum sem felast í greinargerð Ríkisendurskoðunar en hún vegur alvarlega að starfsheiðri okkar.

Forráðamenn Sóltúns átelja harðlega vinnubrögð Ríkisendurskoðunar en niðurstöður hennar benda þess til að innsend gögn Sóltúns hafi ekki verið notuð í úrtakskönnuninni.

Þeirri aðferðafræði, sem leiddi til niðurstöðu skýrslunnar, er alfarið hafnað enda gefur hún kolranga mynd af þeirri þjónustu sem veitt er í Sóltúni.

Ef áreiðanleikamæla á RAI-mat ber Landlæknisembættinu að senda heilbrigðisstarfsmann sem hefur verið þjálfaður í að nota matstækið til að endurtaka matið og bera síðan saman og fara yfir frávik ef einhver eru.

Samkvæmt þjónustusamningi við heilbrigðisráðuneytið ber Sóltúni skylda til að veita vistmönnum hjúkrunar- og læknisþjónustu auk endurhæfingar.

Starfsmenn hafa að leiðarljósi að veita sjúklingum heimilisins bestu fáanlega þjónustu á hverjum tíma, fylgja ákvæðum gildandi þjónustusamnings og tryggja rétt sjúklinga til þjónustu samkvæmt lögum.

Forráðamenn Sóltúns hafa ávallt verið reiðubúnir að veita heilbrigðisyfirvöldum innsýn í starfsemi þess. Hafa þeir farið fram á það við Landlæknisembættið, sem er þar til bær aðili, að það geri athugun á gæðum þjónustunnar og starfsháttum í Sóltúni.

Þjónusta við vistmenn Sóltúns er skráð í  sjúkraskrá og mætingar í þjálfun í mætingarkladda. Að undangengnu mati skrá sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar og hjúkrunarfræðingar Sóltúns niðurstöður sínar um mat á þjálfun vistmanna í gagnasafn og staðfesta skráninguna með nafni og dagsetningu. Þessi gögn eru síðan send í gagnagrunn í heilbrigðisráðuneytinu.

Skoðunarmenn Ríkisendurskoðunar virðast hafa kosið að nota hvorki innsend gögn Sóltúns (5605 blaðsíður) né að ræða við sjúkraþjálfara, iðjuþjálfa, lækna eða hjúkrunarfræðinga heimilisins til þess að sannreyna mat þeirra á fjölda tíma og daga sem fer í þjálfun vistmanna og hvort  vökva- og lyfjagjöf hafi verið gefin í æð þá tilteknu viku sem matið nær til.

Samkvæmt ákvæðum þjónustusamnings Öldungs við ríkið mun ágreiningur um greiðslur vegna ársins 2006 fara fyrir sáttanefnd, að því er segir í yfirlýsingu Öldungs.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert