Þriðja olíukreppan er hafin og ólíkt þeim fyrri orsakast hún ekki af röskun á framboði helstu olíuvinnsluríkja, heldur gífurlegri aukningu í eftirspurn frá Asíu, einkum Kína. Allt útlit er fyrir að olíuverðið muni haldast hátt til frambúðar og á næstu tveimur til þremur árum má gera ráð fyrir að verðið á hráolíunni hækki í um 150 Bandaríkjadali tunnan, en allt að 250 dali komi til átaka á milli Írana og Bandaríkjamanna, jafnvel meira, þó aðeins tímabundið.
Þetta er mat dr. Mamdouh G. Salameh, sérfræðings í olíuvinnslu hjá Alþjóðabankanum, sem segir tindinum í olíuvinnslu heimsins þegar hafa verið náð, deilt sé um hvort miða eigi við 2004 eða 2006.
Árið 2004 gaf Salameh út bókina Over a Barrel, þar sem því er haldið fram að olíubirgðir OPEC-ríkjanna séu ofmetnar um 300 milljarða tunna og séu því í raun um 519 milljarðar tunna. Samkvæmt því hafi tindinum í olíuvinnslu verið náð árið 2004.
Hann hafi verið fyrstur manna til að benda á þetta ofmat í fyrirlestri í Washington á árinu 2003. Þýskur rannsóknarhópur sem hafi notið stuðnings þarlendra stjórnvalda hafi síðan komist að svipaðri niðurstöðu.
Inntur eftir því hvort samstaða sé um þetta mat meðal sérfræðinga í olíuiðnaðinum segir Salameh svo vera. Olíubirgðirnar í Íran, einu helsta OPEC-ríkinu, séu, svo dæmi sé tekið, stórlega ofmetnar. Tölur Orkuupplýsingastofnunarinnar (EIA) um 115 milljarða tunna birgðir séu fjarri lagi, sem og sú áætlun British Petroleum (BP) að þær séu 137,5 milljarðar tunna. Allir séu sammála um að þetta sé ofmat, nær sé að tala um 35–40 milljarða tunna í Íran.
Einnig sé áætlað að í Kúveit sé að finna 99 milljarða tunna, á sama tíma og tímaritið Intelligence Weekly hafi sýnt fram á að þær séu innan við 24 milljarða tunna.