Tvær konur fagna 100 ára afmæli sínu í dag. Jóhanna G. Kristjánsdóttir og Ragna S.G. Norðdahl fæddust báðar á þessum degi árið 1908 og tilheyra því nú ört vaxandi hópi Íslendinga sem eru 100 ára og eldri.
Jóhanna fæddist á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði og bjó þar til ársins 2003 þegar hún var 95 ára. Hún er einn af átta núlifandi Vestfirðingum sem hafa náð 100 ára aldri.
Jóhanna var lengi ritari fyrir stjórn Sambands vestfirskra kvenna. Hún er mikil áhugakona um tungumálið esperantó sem og garðyrkju og skógrækt og hlaut hún eitt sinn viðurkenningu fyrir störf að garðyrkju- og skógræktarmálum úr verðlaunasjóði Kristins Guðlaugssonar frá Núpi. Þá er hún mikil hannyrðakona, prjónar vettlinga og sjöl úr ull, og þykir afar skáldmælt. Í tilefni níræðisafmælis hennar fyrir áratug gaf Kvenfélag Mosvallahrepps, sem Jóhanna er heiðursfélagi í, út ljóðabókina Hríslurnar hennar Hönnu en hún inniheldur ljóð Jóhönnu.
Ragna fæddist á Geithálsi í Mosfellshreppi. Faðir hennar fæddist fyrir 165 árum og mun þetta vera eitt lengsta lífsskeið tveggja kynslóða sem vitað er um, samkvæmt langlifi.net.
Segja má að langlífi sé í genum Rögnu en móðir hennar varð 92 ára, móðurafi 95 ára, föðursystir 96 ára og bróðurdóttir 102 ára. Ragna lauk hjúkrunarnámi 34 ára gömul og vann hún m.a. á elli- og hjúkrunarheimilinu Grund, Heilsuhælinu í Hveragerði og á Kleppsspítala. Hún er næstelsta hjúkrunarkonan á lífi á Íslandi og dvelur nú á Hrafnistu.