Yfirlýsing frá Heklu

Bifreiðaumboðið Hekla hefur sent fréttavef Morgunblaðsins eftirfarandi fréttatilkynningu:

„Í tilefni af umræðu í fjölmiðlum um verðlækkun bifreiðaumboðsins HEKLU á nýjum bílum, vilja forsvarsmenn HEKLU koma eftirfarandi á framfæri:

Sú umtalsverða verðlækkun á nýjum bílum sem HEKLA kynnti 30. apríl síðastliðinn, að viðstöddum forseta ASÍ og aðstoðarframkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, hefur vakið afar jákvæð viðbrögð viðskiptavina okkar og forsvarsmanna fjölmargra fyrirtækja og samtaka. Með þessum aðgerðum afturköllum við að talsverðu leyti þær verðbreytingar sem orðið höfðu frá áramótum vegna gengishækkunar - og leggjum jafnframt okkar lóð á vogarskálarnar í stríðinu við verðbólguna.

Verðlækkun HEKLU nam allt að 17% á einstökum bílategundum en vegin meðaltalslækkun, reiknað útfrá sölu á 15 mest seldu bílategundum HEKLU, nam 9,12%, eins og upplýst var á blaðamannafundinum 30. apríl. Þessar 15 tegundir standa fyrir rúmlega 80% af heildarnýskráningum fyrirtækisins.

Þegar búið er að taka tillit til verðlækkunarinnar 30. apríl sl. hafa þessar 15 mest seldu bílategundir HEKLU hækkað að meðaltali um 12.1% frá áramótum. Á sama tímabili hefur sá gjaldmiðill sem HEKLA stundar sín viðskipti mest í, þ.e. evran, hækkað um 28%. Þessi mismunur skýrist fyrst og fremst af betri samningum HEKLU við framleiðendur og birgja, sem og því að við stillum álagningu í hóf.

Það skal jafnframt tekið fram hér að frá 1. október 2007 og fram til síðustu áramóta varð engin hækkun á nýjum bílum hjá HEKLU."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert