Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í janúar yfir Arunas Bartkus og Rolandas Jancevicius. Frá refsingum þeirra dregst óslitið gæsluvarðhald frá 12. nóvember 2007. Mennirnir voru í héraðsdómi dæmdir í fimm ára fangelsi.
Mennirnir voru dæmdir fyrir nauðgun í miðbæ Reykjavíkur í nóvember sl. Ákærðu, Arunas Bartkus og Rolandas Jancevicius, eru um þrítugt og voru dæmdir til að greiða konunni sem varð fyrir árás þeirra samanlagt 4 milljónir króna í miskabætur í héraðsdómi. Í Hæstarétti var bótafjárhæðin lækkuð í 1.200 þúsund krónur.
Samkvæmt frásögn konunnar hentu eða ýttu mennirnir henni á bakið ofan á vélarhlíf fólksbíls nálægt Laugavegi, drógu gallabuxur hennar niður, flettu upp bol hennar og peysu, klipu og kreistu líkama hennar og nauðguðu henni.
Konan var með ýmsa áverka sem læknar töldu að samrýmdist frásögn hennar.
Annar maðurinn sagði að konan hefði samþykkt að hafa kynmök við þá en hinn sagðist hafa verið mjög ölvaður og myndi ekkert eftir kvöldinu.
Mennirnir hafa báðir hlotið þunga dóma í heimalandi sínu, annar fyrir fjárkúgun og þjófnað og hinn fyrir rán. Segir dómurinn að við ákvörðun refsingar verði að horfa til þess hve hrottalegur verknaður mannanna var, bæði í ljósi kringumstæðna og þeirra svívirðilegu og niðurlægjandi aðferða, sem þeir beittu gagnvart konunni og þess gríðarlega sálartjóns, sem þeir ollu henni samkvæmt áreiðanlegu vætti sálfræðings. Hefðu þeir sýnt fullkomið skeytingarleysi um líðan hennar, kynfrelsi og æru, þegar þeir veittust að henni í bílskýlinu, notfærðu sér og hlógu að bjargarleysi hennar, auðsýndu einbeittan ásetning til að koma fram vilja sínum og skirrðust einskis, þrátt fyrir beiðni hennar um miskunn.
Í dómi héraðsdóms segir þá að annar maðurinn hafi með auvirðilegum hætti vænt konuna um falska kæru, sem rót eigi að rekja til fjárgræðgi og vonbrigða með samfund við mennina í umræddu rými, um miðja nótt í þriggja stiga hita, og að auki gefið í skyn að hún hafi hlotið áverka á kynfærum við samræði með óskyldum aðila, í kjölfar samskipta við Litháana.
Að gættum öllum þessum atriðum var það ekki aðeins álit dómsins að mennirnir hefðu unnið til þungrar refsingar og ættu sér engar málsbætur heldur einnig, að þyngja bæri refsingu þeirra sérstaklega í ljósi samverknaðar.