Keyrð niður á merktri gangbraut

Guðrún Þórsdóttir.
Guðrún Þórsdóttir.

Hjálmurinn bjargaði Guðrúnu Þórsdóttir, helsta hjólreiðaþjarki Umhverfis- og samgöngusviðs, þegar hún var keyrð niður í gær á merktri gangbraut við Kringlumýrarbraut og Bústaðaveg.

Frá þessu greinir í tilkynningu frá borginni.

Guðrún hjólaði frá Borgartúni 10-12 eftir Kringlumýrarbraut í undirgöng hjá Kringlunni, framhjá Borgarleikhúsinu og þaðan á göngurein eftir Kringlumýrarbraut út á Bústaðaveg.

"Ég fór út á gangbrautina en þá tekur bifreið af stað og ekur að mér og bílstjórinn horfir aðeins til vinstri og gerir ekki ráð fyrir neinum fyrir framan sig. Ég hugsa: "Ætlar hún yfir mig?" Svo er ekið á mig, ég skell í götuna og bílinn keyrir yfir hjólið," segir Guðrún.

Guðrún hvikar ekki frá hjólreiðahugsjón sinni en brýnir fyrir fólki að nota hjálm og taka þátt í Hjólað í vinnuna. Guðrún segist hlakka til að stiga fótstigið aftur enda hjólar hún árið um kring.

"Við erum aldrei of örugg til að nota ekki hjálminn," segir hún, "aðstæður voru öruggar fyrir mig og ég gat ekki búist við að þessi bíll færi af stað og keyrði mig bara niður, en of fáir bílstjórar hafa lært að gera ráð fyrir hjólreiðamönnum."  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert