Landsvirkjun Power til Tyrklands

„Landsvirkjun Power stefnir að því að stofna félag með tyrknesku jarðhitafyrirtæki sem heitir ORME og ætlunin er að eiga það til helminga,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri Landsvirkjunar Power, dótturfélags Landsvirkjunar sem meðal annars er ætlað að halda utan um verkefni hennar erlendis.

Byggja virkjanir til að eiga, reka eða selja

Bjarni segir að ekki sé búið að ganga frá stofnun félagsins en að það verði vonandi gert á næstu vikum.

Ef af félaginu verður er ætlun þess að byggja jarðhitavirkjanir í Tyrklandi. „Félagið verður stofnað til að vinna að jarðhitaverkefnum. Það eru hins vegar engin slík verkefni komin, en við munum leita þeirra. Ef svo færi að þau kæmu þá myndum við væntanlega byggja virkjanir, eiga þær, reka eða selja. Það er allt opið með það. En hugmyndin er að samnýta þekkingu okkar. Tyrkneska félagið sem við erum í sambandi við hefur mikla reynslu í lághita á meðan við höfum mikla reynslu í vinnslu háhita. Okkur sýnist því að þetta gæti geti farið mjög vel saman.“

Enn engar fjárhagslegar skuldbindingar

Bjarni segir Landsvirkjun Power ekki hafa undirgengist neinar fjáhagslegar skuldbindingar enn sem komið er. „Ef við stofnum þetta félag þá aukast þær í takt við þau verkefni sem við fáum. En við borgum einungis lágmarkshlutafé inn í þetta félag við stofnun þess.“

Landsvirkjun hefur verið í tengslum við ORME í nokkur ár þar sem Íslensk jarðhitatækni, dótturfélag Landsvirkjunar Power, hefur þjónustað það með dælur í borholur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert