Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnar formlega nýju áhorfendastúkuna við Kópavogsvöll við hátíðlega athöfn á Kópavogsdögum sem hefst á morgun, föstudaginn 9. maí, klukkan 15:00, samkvæmt tilkynningu frá Kópavogsbæ.
Auk opnunarinnar eru auk tónlistaratriði á dagskrá, blessun mannvirkisins og ávörp Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra og Ásthildar Helgardóttur, formanns ÍTK. Þá verður almenningi boðið að skoða mannvirkið til klukkan 20:00.
Í tilkynningunni segir að nýja stúkan sé kjallari og tvær hæðir og er ætluð fyrir 1.360 manns. Í henni rúmast enn fremur búnings- og félagsaðstaða. Fjórir búningsklefar eru í kjallara ásamt góðum geymslum fyrir vallarbúnað. Einnig er þar aðstaða fyrir dómara og aðra starfsmenn. Veitingasala er á jarðhæð ásamt salernum svo og sölustúkum úti. Á efstu hæð er 90 m2 salur með góðu útsýni í allar áttir. Þar er einnig aðstaða fyrir vallarstjórn og blaða- og fréttamenn.