„Ráðning í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar"

Ólafur F. Magnússon.
Ólafur F. Magnússon. Ómar Óskarsson

Ólafur F. Magnússon segir að ráðning framkvæmdastjóra miðborgarmála sé í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um ráðningar starfsmanna.  Hann segir að laun nýráðins framkvæmdastjóra séu sambærileg og laun fyrrverandi miðborgarstjóra R-listans frá árinu 2005.  Þetta kemur fram í eftirfarandi tilkynningu sem borgarstjóri sendi frá sér í dag.   

„Komið hefur í ljós eftir skoðun á kjörum nýráðins framkvæmdastjóra miðborgarmála og fyrrverandi miðborgarstjóra R-listans frá árinu 2005 að laun þeirra eru sambærileg. Þannig voru mánaðarlaun miðborgarstjóra R-listans í febrúar árið 2005 kr.495.179. Auk þess fékk hann kr. 55.735. í viðbótarlaun eða alls kr. 550.914.  Föst mánaðarlaun framkvæmdastjóra miðborgarmála eru kr. 474.214. og föst yfirvinna kr. 236.386, eða alls kr. 710.600. Launavísitala á þessu tímabili hefur hækkað um 29% og ef laun miðborgarstjóra R-listans eru framreiknuð miðað við launavísitölu  þá verða þau jafn há og laun nýráðins framkvæmdastjóra miðborgarmála, þ.e. kr. 710.600.

Hvernig staðið var að ráðningu í nýtt tímabundið starf framkvæmdastjóra miðborgarmála er í samræmi við reglur Reykjavíkurborgar um ráðningar starfsmanna. Í kjarasamningum Reykjavíkurborgar og viðsemjenda kemur skýrt fram að ekki sé skylt að auglýsa störf þegar ráðning skal standa í 12 mánuði eða skemur.  Það er því ljóst að borgarstjóri, eins og aðrir stjórnendur borgarinnar, hafa fulla heimild til að stofna og ráða til tímabundinna starfa vegna tiltekinna viðfangsefna án auglýsingar

Starf framkvæmdastjóra miðborgarmála heyrir beint undir borgarstjóra. Þannig er lögð áhersla á mikilvægi starfsins og þá vigt sem starfið og sá sem því gegnir á að hafa í samskiptum við sviðsstjóra, embættismenn og hagsmunaaðila. Starf miðborgarstjóra R-listans heyrði líka beint undir borgarstjóra.

Starf sem auglýst var í desember s.l. þ.e. starf „verkefnisstjóra á skrifstofu borgarstjóra”, sem borgarfulltrúar minnihlutans hafa gert að umræðuefni,  er allt annað en hið nýja starf sem hér um ræðir.  Það starf verkefnisstjóra átti að heyra undir skrifstofustjóra borgarstjóra og  ákveðið var fyrir all nokkru að hverfa frá því að ráða í það starf.

Það er skoðun borgarstjóra að með ráðningu framkvæmdastjóra miðborgarmála í umfangsmikil verkefni verði samþætting og framgangur mála tengd Miðborginni betri en áður og skili árangursríkara starfi í þeim mikilvægu efnum. 

Nýr framkvæmdastjóri miðborgarmála er hér á fyrstu starfsdögum sínum.  Samkvæmt hefð verður farið yfir það hvort trúnaðarstörf  á vettvangi nefnda og ráða borgarinnar sem hann tók að sér áður en til umræddrar ráðningar kom, geti með einhverjum hætti verið ósamrýmanleg nýju starfi hans hjá Reykjavíkurborg. Leiki minnsti vafi þar á mun hann að sjálfsögðu segja sig frá viðkomandi nefndarstörfum."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert