Seltjarnarnesbær bauð öllum konum sem starfa hjá bænum í kaffi í dag og komu ríflega 200 konur og þáðu varagljáa sem Seltjarnarnesbær keypti til stuðnings átakinu Á allra vörum.
Á allra vörum er kynningar- og fjáröflunarátak sem hefur að markmiði að leggja Krabbameinsfélaginu lið við að safna peningum til að kaupa ný tæki til greiningar á brjóstakrabbameini.
Gróa Ásgeirsdóttir greindist með krabbamein síðastliðið haust og er meðal þeirra kvenna sem vinna að þessu átaki. Gróa kynnti átakið og naut stuðnings systur sinnar Þóru Ásgeirsdóttur. Gróa afhenti bæjarstjóra Seltjarnarness fyrsta varagljáann af þeim 200 sem keyptir voru.