Biskup: „Afar þungbært“

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, segir mál séra Gunnars Björnssonar, sóknarprests á Selfossi vera afar þungbært, en þrjár kærur hafa borist á hendur Gunnari fyrir kynferðislega áreitni. Karl vísar því alfarið á bug að að aðkoma fagráðs kirkjunnar að málinu hafi skaðað það eða tafið.

„Ég vísa því alfarið á bug að það hafi orðið til að tefja eitt eða neitt. Ég held að þetta hafi umfram allt orðið til þess að greiða fyrir að hlutir fóru í réttan farveg,“ segir biskup.

Kirkjan setti sér reglur um meðferð kynferðisbrotamála sem koma upp innan kirkjunnar fyrir um áratug, en fagráðið – sem er sjálftstætt starfandi - hefur slík mál til umfjöllunar. Að sögn biskups er þetta í fyrsta sinn sem reynir á þessar reglur.

Þess ber að geta þess að fagráðið hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fram kemur að fulltrúi þess hafi ekki rætt við meinta þolendur í umræddu máli.

Þá segir Karl mikilvægt að fólk gleymi ekki mannlega þættinum í málinu. Það sé mikilvægt fyrir alla aðila að hið sanna og rétta komi í ljós sem fyrst. „Þetta er afar þungbært mál, líkt og öll slík mál. Það er mikil sorg og mikið áfall fyrir alla hlutaðeigandi,“ segir Karl.

Sem fyrr segir hafa þrjár kærur borist á hendur séra Gunnari og að sögn lögreglu munu skýrslutökur fara fram í næstu viku.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert