Frágengið er að jarðgerðarstöð verður reist í landi Þverár í Eyjafjarðarsveit, skammt innan Akureyrar. Samningur þar um var undirritaður í vikunni. Í stöðinni, sem tekur til starfa í byrjun næsta árs, verður lífrænn úrgangur úr firðinum jarðgerður. Fyrst í stað verður um að ræða úrgang frá fyrirtækjum en stefnt er að því að allur lífrænn úrgangur í firðinum verði jarðgerður þar síðar meir.
„Stöðin verður á flatanum hér fyrir neðan malarnámurnar. Mér leist strax vel á hugmyndina; það er gott að fá eitthvað jákvætt á móti raskinu sem sumum finnst vera af malarnáminu. Svo kemur frábær mold úr þessu, sem fyrst í stað verður notuð til uppgræðslu hér hjá okkur,“ sagði Ari Hilmarsson, bóndi á Þverá, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Samningurinn er á milli Moltu ehf. og Þverár Fasteigna ehf. Framkvæmdir við 1200 fermetra hús stöðvarinnar hefjast strax og nauðsynlegri undirbúningsvinnu vegna skipulags verður lokið.