Rekstarfyrirtækið Kjarnabúð ehf, sem er í eigu Vagnssystkina í Bolungarvík, undirritaði í dag tæplega 400 milljóna króna samning við þýsku ferðaskrifstofuna Kingfisher Reisen sem er ein af stærstu evrópsku ferðaskrifstofum sem sérhæfa sig í ýmiskonar stangveiðiferðum, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Þar segir að samningurinn sé gerður til fimm ára. Kjarnabúð ehf. hyggst ráðast í framkvæmdir og uppbyggingu fyrir þetta verkefni fyrir tæpar 300 milljónir á næstu þremur árum. Ætlunin er að byggja 20 hús í Bolungarvík til að þjónusta sjóstangveiðimenn á vegum Kingfisher reisen. Einnig verða smíðaðir 20 bátar fyrir verkefnið.
Kingfisher Reisen hóf rekstur árið 1987 og þjónustar milli 7.500 og 8.000 viðskiptavinum á ári, flestir þeirra koma frá Þýskalandi, Austurríki og Sviss. Til þessa dags hafa áfangastaðir Kingfisher verið Noregur, Svíþjóð, Írland, Canada og Alaska. Nú bætist við nýr og spennandi áfangastaður, Bolungarvík á Íslandi.