Mokveiði í Öxarfirði

Karólína ÞH 111
Karólína ÞH 111 mbl.is/Hafþór Hreiðarsson

„Ég hugsa þetta sé mesti afli sem línubátur í smábátakerfinu hefur fengið í einum róðri" sagði Haukur Eiðsson skipstjóri á Karólínu ÞH 111 þegar fréttaritari innti hann eftir aflabrögðum gærdagsins. 
 
Haukur og áhöfn hans lögðu í róður frá Kópaskeri á miðnætti aðfaranótt fimmtudags og um kl. 22 í gærkveldi komu þeir aftur að landi á Kópaskeri. Reyndar þurftu þeir að tvíhlaða því fyrr um daginn var farið inn á Kópasker til að létta á bátnum og síðan út aftur til að draga restina af línunni.
 
80 tonn það sem af er maímánuði

Aflinn var alls um 21 tonn upp úr sjó en línan var lögð í Öxarfirði, skammt undan Kópaskeri.  Karólína er með beitingavél um borð og sagði Haukur að þeir hafi lagt línu sem  samsvaraði eins og 50 bjóðum af landbeittri línu.
 
Haukur segir aflabrögð húsvískra línubeitningabáta hafa verið mjög góð og afli Karólínu það sem af er maímánuði er um 80 tonn eftir sjö róðra. Þá segir Haukur fiskinn vera mjög góðan, 3 kg. og yfir, auk þess sem mikið er af mjög vænum fiski með. „Við erum að sjá boltaþorska sem við höfum ekki verið að sjá á línuna hér fyrir norðan áður, sagði Haukur en bátar voru í landi í dag vegna brælu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert