Í næsta nágrenni við Alþingishúsið er Tjarnarskóli og á hádegi í gær, þegar vörubílstjórar þeyttu flautur sínar í mótmælaskyni af miklum móð, voru nemendur 10. bekkjar skólans í samræmdu prófi í stærðfræði.
„Þetta var alveg ofboðslega óþægilegt vegna þess að öll próf þarfnast ákveðins næðis og svo brustu þessi mótmæli á,“ segir Margrét Theódórsdóttir, skólastjóri Tjarnarskóla. „Það var í sífellu verið að þeyta lúðrana. Ég hugsa að þetta hafi verið í alla vega hálftíma eða upp undir klukkutíma.“
Um var að ræða síðasta samræmda próf 10. bekkinga og var próftíminn frá kl. 9-12 en heimilt er að framlengja um 45 mínútur reynist þess þörf. Margrét telur flautin hafa hafist upp úr kl. 11:30 og hófu nemendur fljótlega að kvarta undan hávaðanum. Margrét hafði samband við Námsmatsstofnun, sem hefur umsjón með samræmdu prófunum, og var fallist á að veita þeim 15 mínútna uppbótartíma.