Ármann Kr. Ólafsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ætlar að óska eftir því að hagkvæmnin við að færa flutninga af vegum út á sjó verði reiknuð og ráðgerir að flytja þingsályktunartillögu þess efnis.
Í Morgunblaðinu í gær var haft eftir Ármanni að hann vildi niðurgreiða strandflutninga á sambærilegan hátt og gert væri með landflutninga í þeim tilgangi að færa flutninga að einhverju leyti af vegunum og út á sjó.
„Ég hef aldrei fengið jafnsterk viðbrögð við nokkru máli,“ segir hann og bætir við að þau séu þverpólitísk og eingöngu jákvæð. Stefna flestra landa sé að færa flutninga af vegunum yfir á vatn, haf og ár og ef Íslendingar vilji fylgja nútímanum sé það best gert með því að gera strandflutninga að raunverulegum valkosti. Þetta sé líka spurning um mengun og kostnað við eldsneyti í olíukreppunni sem dynji á heimsbyggðinni.