Íbúar Sólheima og Styrktarsjóður Sólheima hafa tekið að sér að styðja nýtt samfélag og byggðahverfi í Suður Afríku sem þjónar einstaklingum með sérþarfir, að því er kemur fram í tilkynningu frá Sólheimum. Ikhaya Loxolo (Heimili friðarins) er fyrsta heimilið fyrir einstaklinga með þroskahömlun í Elliotdale, sem er eitt fátækasta svæði Suður Afríku.
Í tilkynningunni segir að heimilið hafi formlega tekið til starfa í janúar 2008 þegar fyrstu einstaklingarnir fluttust þangað en dvalarkostnaður þeirra fyrsta árið er greiddur með framlagi íbúa Sólheima. Næsta verkefni var að safna fyrir kaupum á fimm geitum svo að íbúar hafi mjólk til daglegrar neyslu. Geiturnar urðu 8 einhverja hluta vegna og allar óléttar og er því von á einhverjum kiðlingum á næstunni.
Í Ikhaya Loxolo munu í næstu framtíð dvelja 15 einstaklingar með þroskahömlun. Þegar er búið að byggja á staðnum svefnskála fyrir 15 manns, eldhús og vinnustofu, salernishús, auk hænsnahúss. Þetta er í fyrsta skiptið sem Sólheimar veita þroskahömluðum erlendis aðstoð, en flest systrafélög Sólheima í Vestur-Evrópu leggja fram fjármuni til þróunaraðstoðar.