Tveir yfirheyrðir vegna bankaráns

Frá bankaráninu í Hafnarfirði.
Frá bankaráninu í Hafnarfirði. mbl.is/Július

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo menn á tvítugsaldri í gærkvöldi og verða þeir yfirheyrðir í tengslum við Bankaránið sem framið var á miðvikudaginn í Hafnarfirði.

Ómar Smári Ármannsson aðstoðaryfirlögregluþjónn sagði í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins að ekki væri ljóst á þessu stigi málsins hvort þessir menn hafi átt aðild að ráninu. „Það á eftir að koma í ljós... við eigum eftir að fara nánar ofan í saumana á þessu og svo sjáum við til," sagði Ómar Smári.

Er þá ekki talið að ræninginn hafi verið einn að störfum? „Yfirleitt er það nú talið í fyrstu að menn séu einir en síðar kemur í ljós að þeir hafi verið fleiri en einn. Við trúum ekki alltaf öllu sem við sjáum," sagði Ómar Smári.

Ómar sagði að lögreglan hafi handtekið þessa menn í kjölfar vísbendinga sem bárust.  Það mun koma í ljós síðar í dag hvort mennirnir sem í haldi eru fái stöðu grunaðra manna.

Lögreglan er með tvo unga menn í haldi.
Lögreglan er með tvo unga menn í haldi. mbl.is/Július
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert