Að blekkja neytendur, er bannað samkvæmt íslenskum lögum. Eðlileg og sjálfsögð neytendavernd er þó ekki það eina sem vakir fyrir löggjafanum, heldur er slíkt bann ekki síður nauðsynleg forsenda þess að samkeppni fái þrifist. Löggjöfinni er því ekki síður ætlað að stuðla að heiðarlegri og um leið virkri verðsamkeppni, sem myndi ella snúast fljótlega upp í keppni um snjöllustu neytendablekkingarnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Brimborg.
„Þessu mikilvæga markmiði 5. og. 6. gr. laga nr. 57/2005 um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum og gagnsæi markaðarins, mega fyrirtæki ekki missa sjónar á í markaðsstarfi sínu. Auglýsingaherferðir sem innihalda skilaboð sem eru röng eða villandi skaða neytendur og rýra um leið traust þeirra á fyrirtækjum innan þeirra atvinnugreina sem þau starfa. Þetta á ekki hvað síst við á tímum vaxandi samdráttar í efnahagslífinu og verðbreytinga samfara örum gengisbreytingum.
Sem kunnugt er hefur Brimborg gert alvarlegar athugasemdir við markaðsherferð Heklu „varanleg verðlækkun um allt að 17% gegn verðbólgu.“
Loforð sem viðkomandi umboð gefur neytendum stenst ekki skoðun, jafnvel þó að einungis sé gefið fyrirheit um „allt að“ 17% verðlækkun. Samkvæmt orðanna hljóðan felur slíkt fyrirheit þó annað og meira í sér en 17% verðlækkun á einum bíl, nánar tiltekið Audi A4 1.8 TFSI bensín 4 dyra, 6 gíra beinskiptur, sem hefur ekki selst hér á landi í hálft þriðja ár. Enginn beinskiptur Audi A4 með bensínvél á stærðarbilinu 1.6 til 2.0 hefur selst á árinu 2008, enginn seldist á árinu 2007, enginn seldist á árinu 2006 og aðeins tveir bílar seldust á árinu 2005.
Vel kann að vera að þarna sé um allt að 17% verðlækkun að ræða. Það er engu að síður augljóst, að verðlækkun á bíl sem ekkert hefur selst af, hefur engin áhrif til lækkunar verðbólgu. Auglýsingaherferðin sem byggir á baráttu gegn verðbólgu og lætur í veðri vaka að allar bíltegundir frá Heklu hafi lækkað um allt að 17%, er af þeim sökum villandi fyrir neytendur, ekki réttmæt gagnvart keppinautum og brýtur í bága við lög.
Neytendastofa hefur m.a. það hlutverk að fylgjast með því, að fyrirtæki fari að lögum varðandi auglýsingar og kynningar hvers konar og stuðla þannig að vernd neytenda og frjálsri samkeppni. Brimborg hefur sent Neytendastofu formlega athugasemd vegna umræddrar auglýsingaherferðar og er stofnunin hvött til að bregðast hratt við. Trúverðugleiki Heklu er ekki aðeins í húfi, heldur trúverðugleiki bílgreinarinnar í heild."