Neytendastofu hafa borist erindi frá tveimur bílaumboðum, þ. á m. Brimborg, vegna nýlegrar markaðsherferðar bílaumboðsins Heklu. Deilt er um hvort herferðin stangist á við lög um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum, en auglýst hefur verið allt að 17% verðlækkun á bílum hjá Heklu, í þeim yfirlýsta tilgangi að sporna gegn verðbólgu. Í yfirlýsingu frá Brimborg segir að hin auglýsta verðlækkun eigi aðeins við eina gerð Audi-bifreiðar sem ekki hafi selst hér á landi síðan 2005. Verðlækkun á þeim bíl hafi því ekki áhrif til lækkunar verðbólgu.
Viðurlögin bann eða sekt
Að sögn Þórunnar Önnu Árnadóttur, sviðsstjóra neytendaréttarsviðs hjá Neytendastofu, er í báðum erindum vísað til fimmtu og sjöttu greinar laganna. Þar er m.a. lagt bann við því sem brýtur í bága við góða viðskiptahætti og er óhæfilegt gagnvart hagsmunum neytenda, svo sem rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar í auglýsingum. Starfsmenn Heklu fá 10 daga frest til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri við stofnunina og mun málsmeðferð því standa út næstu viku. Neytendastofa hefur heimild til að banna birtingu auglýsinga og sekta fyrirtæki sem brjóta gegn fyrrnefndum lögum.