Til Íslands til að veita kynlífsþjónustu

Hjá lögreglu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli vaknar reglulega grunur um að erlendar konur komi hingað til lands gagngert til að veita kynlífsþjónustu, að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.

„Það er reynt að skoða þessi tilvik hvert fyrir sig. Formleg rannsókn á því hvort þessi tilvik séu mögulega tengd mansali hefur ekki farið af stað þar sem til þess þarf ákveðinn rökstuddan grun,“ segir Jóhann. „Það er nánast ógerningur að vita við hvaða félagslegar aðstæður konurnar búa í því landi sem þær koma frá eða um möguleg tengsl þeirra við meinta glæpahópa. Það er hins vegar fjarri lagi að hægt sé að fullyrða að vændi sem tengist mansali sé ekki til staðar.“

Hann fagnar því að halda eigi hér á landi ráðstefnu í júní á vegum ríkislögreglustjóraembættisins þar sem fulltrúar norskra lögregluyfirvalda miðla af reynslu sinni af framkvæmd norsku aðgerðaáætlunarinnar gegn mansali.

„Það er fagnaðarefni að ríkislögreglustjóri skuli hafa þetta frumkvæði því að það er augljóst að hér kann eitt og annað að koma upp á yfirborðið ef fræðsla og menntun allra eykst.“

Jóhann tekur það fram að lögregluembættið á Suðurnesjum hafi þegar mikla innsýn í þessi mál. „Á árunum 2002 til 2005 var fjöldi einstaklinga sakfelldur fyrir að standa að smygli á fólki sem var að fara um Ísland. Þetta voru mál sem rannsökuð voru hér. Síðan hafa ekki komið upp slík mál sem við vonum að sé vísbending um að menn sem eru að flytja fólk mansali milli landa sneiði framhjá Íslandi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert