Ástandið veldur sjálfstæðismönnum áhyggjum

Meirihlutinn í borgarstjórninni kynntur
Meirihlutinn í borgarstjórninni kynntur Árvakur/Árni Sæberg

Fátt veldur stuðningsmönnum Sjálfstæðisflokksins meiri áhyggjum um þessar mundir en ástandið í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Þar hefur skapazt ástand, sem engin fordæmi eru fyrir í sögu þessa stærsta og öflugasta stjórnmálaflokks þjóðarinnar. Þetta kemur meðal annars fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.

Í fyrsta lagi er sú tilfinning sterk meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins, að innan borgarstjórnarflokksins skorti á að full samstaða sé á milli borgarfulltrúa.

Í öðru lagi að borgarstjórnarflokkinn skorti forystu þrátt fyrir yfirlýsingu borgarfulltrúa annarra en Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og varaborgarfulltrúa frá því í lok febrúar, sem var svohljóðandi:

„Borgarstjórnarflokkurinn tekur undir það með Vilhjálmi, að ekki sé ástæða til að ákveða nú hver verður borgarstjóri eftir rúmt ár. Sú ákvörðun verður tekin af borgarstjórnarflokknum í sameiningu þegar nær dregur og með hagsmuni flokksins og borgarbúa að leiðarljósi.“

Í þriðja lagi ríkir óvissa innan borgarstjórnarflokksins um fyrirætlanir Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, þrátt fyrir yfirlýsingu hans frá því í lok febrúar þar sem hann sagði m.a.:

„Hvað mig varðar er opið hver tekur við embætti borgarstjóra af hálfu Sjálfstæðisflokksins í marz 2009. Borgarstjórnarflokkurinn mun ákveða borgarstjóraefnið í sameiningu þegar nær dregur.“

Og í fjórða lagi skilur almenningur í borginni ekki hvað vakir fyrir borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins í svonefndu REI-máli.

Ekki er óeðlilegt að stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins hafi spurt hvað forystumenn Sjálfstæðisflokksins ætli að gera til þess að ráða bót á því, sem þeir upplifa sem upplausnarástand innan borgarstjórnarflokks sjálfstæðismanna.

Sennilega er árangursríkasta leiðin út úr þeirri sjálfheldu, sem borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík er komin í að borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar leiti til grasrótarinnar í flokknum. Haldi fundi í hverfafélögunum og í fulltrúaráðinu og leggi spilin á borðið. Geri grein fyrir stöðu mála bæði að því er varðar persónur og málefni og hlusti á viðbrögð grasrótarinnar. Taki svo ákvarðanir í framhaldi af slíku samráði við fólkið í flokknum. Enda má gera ráð fyrir að heilbrigð skynsemi móti mjög þær raddir, sem borgarfulltrúarnir mundu heyra á slíkum fundum.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins geta ekki haldið áfram að láta eins og ekkert hafi í skorizt. Þeir verða að taka frumkvæði, sem sýnir að þeir eigi eitthvert erindi í pólitík, að því er segir í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert