Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra opnaði nýja sundlaugarmannvirkið í Sundlaug Kópavogs við Borgarholtsbraut við hátíðlega athöfn í gær, en þar með lauk Kópavogsdögum, menningarhátíð Kópavogsbæjar, sem staðið hefur frá 3. maí.
Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri Kópavogs upplýsti í ávarpi sínu á opnuninni að heildarkostnaður framkvæmdanna hafi numið um einum milljarði króna, að því er fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ.
„Á árunum 2002 til 2008 hefur Kópavogsbær varið á sjöunda milljarð króna til byggingar íþróttamannvirkja eða um einum milljarði á ári að meðaltali,“ sagði Gunnar í ávarpi sínu.
„Það er okkar trú að góð þjónusta og aðstaða til fjölbreyttrar afþreyingar skili sér í ánægðari íbúum og betra samfélagi,“ sagði Ómar Stefánsson, formaður bæjarráðs Kópavogs. „Á einni viku hafa verið tekin í notkun glæsileg mannvirki. Fyrst ungmennahús, þá áhorfendastúka við Kópavogsvöll og hér í dag glæsilegasta sundlaug landsins.“
Fjölmenni var við athöfnina í gær og notaði tækifærið til að skoða sundlaugina. Séra Ægir Sigurgeirsson blessaði mannvirkin, Skólahljómsveit Kópavogs lék og Sunddeild Breiðabliks var með atriði. Í dag, mánudaginn 12. maí, var af þessu tilefni ókeypis í sund í Sundlaug Kópavogs og í Versölum.