Mistök í verðlagningu á fólínsýru

Í síðasta mánuði barst Neytendasamtökunum kvörtun um mikla hækkun á lyfinu fólinsýru (Folic Acid) sem er lyfseðilsskylt lyf. Þá var umbúðum breytt og færri töflur voru í hverri pakkningu. Lyf þetta er frá Actavis og fengu Neytendasamtökin þær upplýsingar hjá Actavis að mistök hafi orðið hjá Lyfjagreiðslunefnd í lyfjaverðskrá sem gefin var út 1. janúar sl. og hámarksverð á þessu lyfi í smásölu var skráð á 973 kr. í stað 630 kr. Næsta lyfjaverðskrá var gefin út 1. maí sl. og þar er lyfið skráð á réttu verði, að því er segir á vef Neytendasamtakanna.
  Í framhaldi af þessu sendu Neytendasamtökin erindi til Lyfjagreiðslunefndar og óskuðu upplýsinga um til hvaða aðgerða ætti að grípa gagnvart þeim sem greitt höfðu of hátt verð fyrir þetta lyf. Nú hefur svar borist frá Lyfjagreiðslunefnd þar sem þessi mannlegu mistök eru hörmuð og beðist afsökunar á þeim. Jafnframt að þeir sem keypt hafa þetta lyf á tímabilinu 1. janúar – 30. apríl sl. geti fengið mismuninn endurgreiddan í þeirri lyfjaverslun þar sem lyfið var keypt og skuli það gert fyrir lok þessa mánaðar.   Mismunandi er hve mikið hver og einn fær endurgreitt en þriggja mánaða skammtur kostaði á röngu verði 2.919 en átti með réttu að kosta 1.890 kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert