Fyrir nokkru var rotþró stolið þar sem hún stóð við sumarbústað í Ásgarðslandi í Grímsnesi. Upplýsingar bárust um að líklega væri hana að finna niðurgrafna við sumarbústað ekki langt þar frá. Lögreglan á Selfossi fór á staðinn og lét grafa upp rotþróna og lagði hald á hana.
Í framhaldi af því var maður handtekinn sem grunaður var um þjófnaðinn. Sá staðhæfði að hafa keypt rotþrónna og framvísaði kvittun því til staðfestingar. Við nánari skoðun kom í ljós að kvittunin var fölsuð. Maðurinn viðurkenndi við yfirheyrslu að hafa falsað kvittunina en hélt sig fast við að hafa keypt rotþrónna. Rannsókn málsins er á lokastigi og verður sent til saksóknara.
Í dagbók lögreglunnar á Selfossi kemur fram að hvítasunnuhelgin hafi verið róleg hjá lögreglunni í Árnessýslu. Að vísu gistu tveir karlmenn fangageymslur í nótt vegna ölvunar og óláta á Selfossi. Þeir munu fá kærur fyrir áfengislagabrot og brot á lögreglusamþykkt.
Í gær, hvítasunnudag, brenndist erlendur ferðamaður á fótum er hann var staddur við Hverahlíð á Hellisheiði. Hann var fluttur á slysadeild Landspítala í Fossvogi. Maðurinn hafði verið að ljósmynda þegar torfa sem hann stóð á seig og fætur mannsins lentu í heitum leir.
Pakka sem sendur var með sérleyfisbíl frá Kirkjubæjarklaustri að Selfossi var stolið eftir að bílstjóri afhenti hann í afgreiðslu sérleyfisins á N1 við Austurveg á Selfossi. Pakkinn innihélt vatnskassa í mótorkrosshjól. Þeir sem veitt geta upplýsingar um málið eru beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.