Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, er í stuttri heimsókn í Bretlandi og fundaði hún í dag með breskum ráðamönnum og flutti erindi á hádegisverðarfundi bresk-íslenska verslunarráðsins, með bresku og íslensku viðskiptafólki.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að á fundi með Jim Murphy, ráðherra samskipta við Evrópu, var rætt um málefni Evrópusambandsins, Hatton Rockall-svæðið, öryggismál á Norðurslóðum og hvalveiðar. Ráðherrarnir undirrituðu samkomulag um samstarf í varnarmálum.
Þá átti utanríkisráðherra fund um málefni öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna með háttsettum embættismönnum í breska utanríkisráðuneytinu. Loks hitti ráðherra Malloch Brown lávarð, ráðherra málefna Afríku, Asíu og SÞ, og ræddu þau um þróunarsamvinnu, málefni Sómalíu, fæðuöryggi og áhrif verðhækkana um heim allan á matvælum.