HIV-smituðum hömluð innganga í Bandaríkin

Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-Ísland – Alnæmissamtakanna á Íslandi, segir reglur í gildi í Bandaríkjunum sem meina einstaklingum með HIV að ferðast til landsins með sama hætti og aðrir ferðamenn.

Reglurnar geta orðið til þess að HIV-smitaðir velji að gefa upp rangar upplýsingar á eyðublöðum fyrir vegabréfsáritunar-undanþágu (visa waiver) við komuna til Bandaríkjanna, en þar eru ferðamenn m.a. spurðir hvort þeir séu haldnir sjúkdómi sem geti verið smitandi.

Gefi ferðamaður upp á eyðublaðinu að hann sé með HIV fær hann ekki inngöngu í landið.

Eru reglurnar svo víðtækar að HIV-smituðum er einnig óheimilt að millilenda á bandarískum flugvelli til að halda áfram til áfangastaðar utan Bandaríkjanna.

„Þessar reglur voru settar árið 1990 í tíð George Bush eldri, og var mikið mótmælt af hagsmunasamtökum HIV-smitaðra,“ segir Einar Þór og bendir m.a. á hvernig reglurnar hafa sett strik í reikninginn fyrir þátttakendur í ráðstefnum um HIV og alnæmi sem haldnar hafa verið í Bandaríkjunum og nágrannalöndum.

Birna Þórðardóttir var formaður Alnæmissamtakanna árið 2006 þegar NordPol, samráðssamtök alnæmisfélaga á Norðurlöndunum sendu utanríkisráðherra Bandaríkjanna bréf þar sem athugasemdir voru gerðar við reglurnar: „Þetta er alveg á hreinu, engum er hleypt inn og ekki beitt neinum vettlingatökum,“ segir Birna. „Einn af forsvarsmönnum HIV-samtakanna í Danmörku lét á þetta reyna, og fékk ekki að fljúga í gegnum landið. Í kjölfarið var það orð látið út ganga að fólk svaraði ekki þessari vitleysu sem spurt væri um á eyðublöðunum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert