Hveragerði mótmælir áformum um Bitruvirkjun

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar samþykkti samhljóða á fundi í morgun bókun, þar sem mótmælt er harðlega öllum áformum um virkjun við Bitru. Segir í bókuninni að einsýnt sé að með þeim áformum sé verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni.

„Við skorum á sveitarfélagið Ölfus að hætta við þá breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins sem gerir ráð fyrir virkjun á þessu svæði enda yrðu neikvæð áhrif virkjunar og tengdra framkvæmda afar mikil á þessu verðmæta útivistarsvæði. Óumdeilt er að áhrifin verða einnig mikil á lífsgæði íbúa í næsta nágrenni virkjunarinnar, hljóta hagsmunir Hvergerðinga að vega þar þyngst. Bæjarstjórn vill í þessu sambandi enn og aftur minna á að borholur vegna Bitruvirkjunar verða staðsettar í um 4 kílómetra fjarlægð frá byggðinni í Hveragerði," segir m.a. í bókun bæjarstjórnarinnar, sem einnig gerir verulegar athugasemdir við framgöngu Sveitarfélagsins Ölfuss í málinu.

Þá segir í bókuninni, að Orkuveita Reykjavíkur hafi sýnt það og sannað í gegnum tíðina að fyrirtækið og forverar þess hafi haft umhverfismál að leiðarljósi. „Við trúum því að á því verði ekki breyting nú. Bæjarstjórn Hveragerðis treystir því að stjórn og stjórnendur OR sjái að sér í þessu máli og láti náttúruna og íbúa Hveragerðisbæjar njóta vafans og hætti við öll áform um virkjanir á Bitrusvæðinu og í næsta nágrenni þess," segir í bókuninni.

Segjast forsvarsmenn bæjarfélagsins áskilja sér allan rétt í framhaldinu, verði af virkjun við Bitru, þrátt fyrir eindregin mótmæli Hveragerðisbæjar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert