Olíubrák í Elliðavogi

Starfsmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins leggja flotgirðingu yfir Elliðavog.
Starfsmenn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins leggja flotgirðingu yfir Elliðavog. mbl.is/Júlíus

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins er að hefja hreinsun á svartolíu og hreinsiefni í Elliðavogi við ósa Elliðaá í Reykjavík.

Um er að ræða svartolíu og hreinsiefni, sem notað var til að hreinsa svartolíuflekk í Sundahöfn í gær. Gömul olíuþró á Gelgjutanga var notuð við hreinsistarfið í gær, m.a. til að hreinsa verkfæri og búnað slökkviliðsins. Þróin yfirfylltist í nótt vegna mikillar úrkomu og fóru hreinsiefnið og olía í sjóinn.

Að sögn Höskuldar Einarssonar, deildarstjóra mengunarvarna SHS, er gert ráð fyrir að aðgerðirnar taki 2-3 klukkutíma. Ekki er talið að lífríki Elliðaáa sé í hættu vegna þessarar mengunar.

Slökkviliðið er með talsverðan viðbúnað vegna olíubrákarinnar. Um 15-20 manns eru þar með tvo slöngubáta, tækjabíla og flotgirðingargáma en verið er að leggja flotgirðingu yfir voginn, sem bæði sýgur í sig olíubrákina og heldur henni á yfirborðinu.

Talið er að 300-600 lítrar af svartolíu hafi í gærmorgun farið í sjóinn úr flutningaskipinu Medemborg, sem er í leigusiglingum fyrir Eimskip. 10-12 manns voru í vinnu lungann úr gærdeginum við hreinsunarstörf. Slökkvilið setti flotgirðingar í höfnina til að hefta útbreiðslu olíunnar og dældi svo upp þeirri olíu sem hægt var að ná, með fulltingi þriggja bíla frá Uppdælingu ehf.

Talsverð olía er í Snarfarahöfninni.
Talsverð olía er í Snarfarahöfninni. mbl.is/Júlíus
Nokkur olíubrák er í ármynninu.
Nokkur olíubrák er í ármynninu. mbl.is/Júlíus
Slökkviliðsmenn í Snarfarahöfninni eftir hádegið að undirbúa hreinsunaraðgerðir.
Slökkviliðsmenn í Snarfarahöfninni eftir hádegið að undirbúa hreinsunaraðgerðir. mbl.is/Júlíus
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert