Landvernd telur að sveitarstjórn Ölfuss hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur og bókun nú í apríl afsalað sér sjálfræði til að taka ákvörðun um breytingar á skipulagi sem gerir ráð fyrir jarðgufuvirkjunum á Bitru og Ölkelduhálsi.
Breytingin á skipulaginu gerir m.a. ráð fyrir því að 285 hektara opnu svæði á Bitru og Ölkelduhálsi verði breytt í iðnaðarsvæði fyrir jarðgufuvirkjun.
Landvernd segir að sveitarfélagið hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur skuldbundið sig til þess að skipuleggja svæðið „til samræmis við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru,“ svo vitnað sé til bókunar bæjarstjórnar þann 28. apríl 2006.
„Þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem vitnað er til í bókun sveitarstjórnar, og samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, eru m.a. þær sem tilgreindar eru í auglýsingu um breytingu á aðalskipulagi. Ekki fæst því betur séð en að sveitarstjórn hafi með samningi við Orkuveitu Reykjavíkur, og bókun sinni þann 28. apríl, afsalað sér sjálfræði til ákvörðunar í skipulagsmáli þessu. Að þessu ber sveitarstjórn að huga og eftir atvikum lýsa yfir vanhæfi sínu," segir m.a. í bréfi Landverndar.