Kolmunnafli skipa HB Granda er nú kominn í um 25.000 tonn og það þýðir að búið er að veiða rúman helming kolmunnakvóta fyrirtækisins. Úthlutaður kvóti á þessu ári var um 42.000 tonn en að auki áttu skipin óveidd rúmlega 6.000 tonn frá því í fyrra. Heildarkvótinn á þessu ári er því um 48.000 tonn.
HB Grandi er nú með tvö skip, Faxa RE og Lundey NS, á kolmunnaveiðum en þriðja skipið, Ingunn AK, er úr leik í bili vegna þess að togvíratromla gaf sig, samkvæmt vef HB Granda.
Að sögn Vilhjálms Vilhjálmssonar, deildarstjóra uppsjávarsviðs HB Granda, kom Ingunn AK til Vopnafjarðar 3. maí sl. Nú er verið að smíða nýja tromlu í skipið í Noregi og á hún að vera tilbúin 22. maí nk. Reiknað er með að það taki um einn dag að koma nýju tromlunni fyrir og verður það verk unnið í Noregi. Þegar því lýkur fer skipið til kolmunnaveiða að nýju.
,,Það er slæmt að missa Ingunni AK út á þessum tíma þar sem að veiðin
hefur verið góð að undanförnu,“ segir Vilhjálmur en þess má geta að landað var
úr Faxa RE og Lundey NS á Vopnafirði í gær. Bæði skipin voru með fullfermi af
kolmunna, samtals rúmlega 3.000 tonn.
Að undanförnu hefur kolmunnaveiðisvæðið verið á svokölluðu gráu svæði á
milli Færeyja og Skotlands en samkomulag hefur ekki tekist milli þjóðanna um
lögsögumörk á þessum slóðum. Þar hefur verið góð veiði en verulega dró úr
aflanum um helgina og í kjölfarið flutti skipaflotinn sig um set og flest
skipanna eru nú að veiðum um 40 mílur vestur af Suðurey, sem er syðst Færeyja.
Er rætt var við Vilhjálm var Faxi RE að koma á svæðið eftir um 30 tíma siglingu
frá Vopnafirði og Lundey NS var þá á leiðinni á miðin. Þar er stór floti skipa
að kolmunnaveiðum og eru flest skipanna rússnesk, færeysk og íslensk.
Aflabrögðin voru frekar treg um helgina, að sögn Vilhjálms, en menn vonast til
þess að aflinn glæðist fljótlega, að því er segir á vef HB Granda.
Þess má geta að stefnt er að því að nýta góðan hluta júnímánaðar til að
sinna ýmsu viðhaldi á uppsjávarveiðiskipunum og Vilhjálmur segir að stefnt sé að
því að senda þau til síldveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum um mánaðamótin
júní og júlí.